Leita í fréttum mbl.is

Að fjölga vinum, aðdáendum eða lækum

add_a_friend_facebook_ornament_photosculpture-p1534193882427867193s98_400

Eitt af því sem ég er nokkuð oft spurður um í mínu starfi er hvernig hægt sé að fá fleiri vini eða fleiri læk á vörumerkjasíður á Facebook. Það er nefnilega ekkert gefið að öll vörumerki slái umsvifalaust í gegn á Facebook og oft þarf að vinna fyrir hverju einasta læki sem kemur. Þó eru til ótal margar leiðir til að fá fleiri læk og fleiri vini, án þess þó að fara út í Spam-leiki. 

Það er hins vegar gott að hafa það í huga, þegar verið að spá í þessi mál, að reyna ná til þeirra sem sannarlega hafa áhuga á téðu vörumerki eða fyrirtæki. Það er til einskins fyrir t.d. sokkabuxnavörumerki að vera með 90% af aðdáendum sínum úr hópi karlmanna á aldrinum 13-16 ára.   

Auglýsingar

Samkvæmt því sem kom fram á RIMC 2011 þá koma um 70% læka í gegnum auglýsingar á Facebook. Þennan valkost ætti maður því ekki að hunsa. Það er mjög auðvelt að miða á ákveðna notendur og á nákvæmlega þann hóp sem þú telur markhóp þess vörumerkis eða fyrirtækis sem þú vilt auglýsa. Það er auk þess tiltölulega ódýrt að kaupa auglýsingar á Facebook.

Þetta er undantekningalítið það fyrsta sem ég segi við fólk sem spyr mig. Prófaðu að auglýsa og sjáðu hverju það skilar.

Innihald og gildi

Það vill oft þannig til, að gott innihald auglýsir sig sjálft. Hver hefur ekki deilt t.d. fyndnum auglýsingum og þannig tekið þátt í markaðssetningu vörumerkis á Facebook? Innihaldið getur þannig stundum kallað á fleiri vini og fleiri læk. Myndir, stöðuuppfærslur, myndbönd og allt það getur verið þess eðlist að aðdáendur vilji deila því með vinum sínum.

Ágætt getur verið að tengjast því sem er að gerast hverju sinni, svo lengi sem tengsl eru við viðkomandi vörumerki. 

Sem dæmi má nefna nýja auglýsingu Polar Beer, þar sem ísbjörninn kvartar yfir Eurovision að hætti Elvis Prestley. Um 1100 manns hafa deilt því myndbandi þegar þetta er skrifað og fékk aðdáendasíða Polar Beer um 200 ný læk í kjölfarið.

Síður sem hafa gildi (e. value) eiga einnig oft mjög auðvelt með að fá marga aðdáendur. Starbucks er gott dæmi um síðu sem býður aðdáendum sínum upp á gott gildi, en þar geta notendur haft áhrif á Starbuck kaffikortið sitt eða jafnvel gefið vinum sínum kaffibolla í gegnum netið. 

Þátttaka aðdáenda

Fáðu aðdáendurnar með þér í lið. Hér á Íslandi hefur þetta verið svolítið ofnotað og þá á eins leiðinlegan hátt og hægt er, þ.e. notendur eru fengnir til að senda öllum vinum sínum boð um að gerast aðdáendur. Það er í fyrsta lagi spam og í öðru lagi bannað skv. reglum Facebook, t.d. lenti mbl.is í því að fólk kvartaði undan þeim og viðlíka athæfi þegar þeir settu sína Facebook síðu í loftið.

Það eru þó til fleiri leiðir til að fá aðdáendur til að taka þátt. Það er jafnvel hægt að fá þá til að láta vini sína vita af tiltekinni vörumerkjasíðu án þess að spamma. 

  • Fáðu aðdáendur til að merkja (e. tag) vörumerki inn á myndir. Það er hægt að merkja vörumerkjasíður inn á myndir og myndbönd.
  • Minntu aðdáendur á að merkja vörumerkjasíðuna í stöðuuppfærslum sínum. 
  • Farðu þess á leit við aðdáendur að þeir deili myndum, myndböndum og öðru innihaldi. 

Leikir og viðbætur

Ein vinsælasta leiðin til að ná í fleiri aðdáendur, að auglýsingum undanskildum, er að vera með leiki hvers konar. Leikirnir geta verið jafn fjölbreyttir og þeir eru margir og í mínum huga þurfa þeir fyrst og fremst að vera einfaldir og/eða skemmtilegir. Það er ekki endilega málið að gefa 42" 3D sjónvarp (þó svo það sé ekki slæm hugmynd í sjálfu sér) heldur hvað ég þarf að gera til að eiga möguleika á að vinna það.

Gott dæmi um þetta er pizzastaður A. Á hverjum föstudegi gefur viðkomandi pizzastaður pizzuveislu fyrir 6. Eina sem ég þarf að gera er að svara tiltekinni stöðuuppfærslu og láta vita ég vilji vera með í pottinum. Einfalt en þetta hefur áhrif, aðdáendur pizzastaðarins láta vita af þessu (jafnvel til að auka sína eigin möguleika) og það spyrst út að verið sé að gefa pizzur á viðkomandi síðu. Einfaldleiki er að mínu mati mun betri en hafa hlutina flókna.

Viðbætur (e. apps) geta einnig fjölgað aðdáendum, sérstaklega ef þær eru gerðar á svipaðan hátt og Nói&Síríus (með aðstoð Góðra Samskipta) gerðu nú um páskana. Vel hönnuð viðbót getur haft mjög jákvæð áhrif, en þó ber að geta þess, að nær allar viðbætur kalla eftir persónuupplýsingum notenda og í hugum sumra er það neikvætt.

Social plugin

Sú leið sem flestir mæla með í dag er að vera með Social plugin viðbótina frá Facebook sýnilega á heimasíðu vörumerkis. Um er að ræða bæði læk hnappa og athugasemdabox. Hvort heldur sem er getur skilað góðum árangri og í raun mætti segja að þessi leið sé orðin að reglu fremur en valkosti, ef svo mætti að orði komast. 

 

Þegar allt kemur til alls, tel ég þó mikilvægast að vörumerki sé sýnilegt, einlægt og tilbúið að taka þátt í umræðunni. 


Markaðsetning út frá staðsetningu

Location-Based-Services-460x223

Með síaukinni notkun snjallsíma hafa opnast nýjar leiðir í markaðssetningu. Tilkoma viðbóta (e. apps) og m-síðna er aðeins hluti þeirra möguleika sem standa markaðsfólki til boða. Vissulega eru þetta öflugar leiðir, nýjar og ferskar, og skemmst er að minnast þess er Síminn kynnti QR kóðann svo eftirminnilega fyrir landsmönnum. Það er þó ein leið enn sem hægt er að nota og tengist annars vegar notkun samfélagsmiðla og hins vegar snjallsíma (jafnvel er hægt að nota 3G síma), sú leið er markaðssetning út frá staðsetningu (e. location based marketing). 

Markaðssetning sem þessi styðst við síður á borð við Foursquare, Yelp! eða Facebook Places. Til eru þó nokkrar síður sem ganga út á staðsetningu en þær miða flestar að því að notandi sé með snjallsíma og opið fyrir GPS þjónustu í símanum. Notandinn getur síðan skráð sig inn á staðinn (e. check in) og þannig fengið upplýsingar frá öðrum notendum, tilboð eða hvað annað sem tengist staðnum. Jafnvel er hægt að sjá hverjir eru á viðkomandi stað á þeim tíma.

Það eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga ef ætlunin er að fara út í þess háttar markaðssetningu. Flest þessara atriða má heimfæra á hvers lags markaðssetningu sem er. 

Miðlarnir

Þekktu þá miðla sem standa þér til boða. Hérlendis er Facebook mjög öflugur samfélagsmiðill, en eru allir snjallsímanotendur (um 20-23% farsímanotenda) að nota Facebook Places? Skoðaðu hvar markhópurinn er, hvaða miðil er hann að nota?

Einnig er ágætt að skoða hvernig miðlarnir nýtast. Er auðveldara að koma tilboðum á framfæri í gegnum Foursquare, Gowalla eða Facebook Places? 

Markmið

Markaðssetning væri til einskis án markmiða. Settu þér skýr markmið og hafðu þau að leiðarljósi í því sem þú tekur þér fyrir hendur. Hvort sem þau eru að vekja athygli á staðnum, koma tilboðum á framfæri eða fá umsagnir viðskiptavina.

Til að ná góðum árangri þurfa markmiðin að vera skýr og frekar færri en fleiri. Það getur einnig hjálpað að láta notendur vita, t.d. ef markmiðið er að fá umsagnir viðskiptavina að biðja notendur um að skilja eftir umsögn eða skilaboð til eigenda/rekstraraðila staðar.

Mundu að mæla. Ef þú mælir ekki hvort markmiðum hefur verið náð geturðu ekki sagt til um hversu góð markaðssetningin var.  

Láttu vita af þér

Það er eitt að búa til stað á Foursquare. Í sjálfu sér er það ágætt en eitt og sér skilar það ekki miklu. Hafðu vörumerki Foursquare sýnilegt í anddyrinu, á matseðli eða hvar sem hugsanlegir notendur geta séð það og þannig komist að því að viðkomandi stað er hægt að finna á Foursquare. Láttu þannig offline og online haldast í hendur. Þetta er einnig hægt að gera með QR kóða, en ég set þann fyrirvara á það, að QR kóðinn er mjög í tísku um þessar mundir og mig grunar ef hann verður ofnotaður, að notendur hætti að nenna að skanna alla þessa kóða. Þannig munu þeir missa gildi sitt.  

Gildi

Gefðu notendum eitthvað sem hefur gildi. Það skiptir máli til að draga til sín notendur. Þetta á jafnt við um notendur samfélagsmiðla sem og notendur sem koma í gegnum markaðssetningu út frá staðsetningu. Gildi getur verið eitthvað mjög einfalt (Færð frían kaffibolla við fyrstu innskráningu, Skráðu þig inn og þú átt möguleika á að vinna I-pad) eða flóknara (5. hver innskráning fær glaðning, Hver innskráning gefur 10 punkta osfrv.).

Hægt er að gera þetta gildi enn öflugra með sértækri aðlögun (e. customizing), t.d. væri hægt að búa til sértilboð aðeins fyrir notendur, sérstaka to-do lista, verðlauna umsagnir og svo mætti lengi telja.

Taktu þátt!

Ekki hika við að taka þátt í umræðunni. Ef notendur þínir hafa áhuga á að spjalla við þig, ekki halda aftur af þér. Mundu að öll viðvera á samfélagsmiðlum kallar á samtal, ekki bara einhliða miðlun.

Gættu þín!

Ekki búa til gervinotendur sem setja inn falskar umsagnir. Ef það kemst upp, ertu í djúpum...

Heiðarleiki margborgar sig og það er betra að taka með brosi á móti gagnrýni en að svara með þjósti og hroka.

Markaðssetning út frá staðsetningu og samfélagsmiðlum er frábært tæki, því þar kemstu í snertingu við þá sem eru á staðnum, eru að nota þjónustu, vörumerki eða það sem þú hefur upp á að bjóða og jafnvel í rauntíma. Er hægt að biðja um betri tengingu við viðskiptavini? 

 


Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga um markaðssetningu á samfélagsmiðlum

images2

Hvort sem þú ert með vörumerki með margar milljónir í markaðsfé eða ert einyrki þá eru nokkur atriði við markaðssetningu á samfélagsmiðlum sem er ágætt að hafa í huga. Þessi atriði eru býsna einföld en mörg hver ekki beinlínis augljós. 

Samfélagsmiðlar eru ekki ókeypis

Þátttaka á vörumerkis eða fyrirtækis á samfélagsmiðlum er ekki ókeypis. Eiginlega langt frá því. Þó auglýsingar, síður eða beinn kostnaður við að setja t.d. Facebook síðu í loftið er ekki mikill samanborið við t.d. sjónvarpsauglýsingu, þá er óbeinn eða falinn kostnaður umtalsverður. Stærsti kostnaðarliðurinn er fólginn í þeim tíma sem þú eyðir. Og þú mátt alveg treysta því, að markaðssetning á samfélagsmiðlum tekur tíma.

Þetta á sérstaklega við ef þú ákveður að fara eins skipulega að þessu og hægt er, fylgir svona bestu-aðferðar (best-practice) líkönum. Það fer tími í að vakta umræður, finna lykilnotendur, þjálfa sendiherra vörumerkis og svo mætti lengi telja. Auk þess þarf oft að útbúa efni sérstaklega fyrir samfélagsmiðla, t.d. búa til lendingarsíður eða sérstakar prófílmyndir í réttum stærðum fyrir þá miðla sem verið er að nota. 

Finndu markhópinn

Það er til einskis að vera á Facebook ef markhópurinn er á Youtube. Þú þarft því að átta þig á því hvaða samfélagsmiðill er mest notaður af markhópi þínum. Einnig gæti verið gott að kanna á hvaða tímum hann er mest notaður, þannig veistu hvenær er líklegast þú náir til sem flestra.

Hægt er að gera rannsóknir á þessu með tilheyrandi kostnaði, kaupa til þess hvers konar hlustunargræjur, notast við Google leitarorðavöktun oþh. Einfaldasta leiðin tel ég var þá að spyrja einfaldlega fólk sem er í markhópnum. Ég held að flestir þekki nógu marga til að geta gert sína persónulegu, óvísindalegu könnun, sem þarf ekkert endilega að vera verri en sú vísindalega. Maður verður bara að muna að slíkar kannanir eru gerðar með þeim formerkjum sem ég áður nefndi.

Mældu árangur!

Til að sjá hversu vel gengur er gott að setja sér annars vegar markmið og hins vegar styðjast við einhvers konar mælitæki. Það getur vissulega verið markmið út af fyrir sig að fá mjög marga aðdáendur en hverju skilar það markmið ef þeir aðdáendur eru hvorki í markhópnum né hafa einhvern sérstakan áhuga á því vörumerki eða fyrirtæki sem þú ert að markaðssetja? Hafa komið til vegna annarra þátta, t.d. vegna vinaleikja þar sem vinningurinn hefur meira aðdráttarafl en síðan sjálf?

Persónulega er ég ekki á því að fjöldi aðdáenda, eða læka, sé góður mælikvarði á árangur. Það er ákveðinn mælikvarði og getur í sumum tilfellum verið dæmi um góðan árangur en ekki alltaf. Í mínum huga er það svolítið eins og að segja að allar bækur sem fá verðlaun séu góðar bækur. Þú getur verið með síðu sem er aðeins með 100 aðdáendur, en þeir eru allir trúir og dreifa efni frá þér víða, tala máli þínu og eru í raun góðir sendiherrar vörumerkisins. Eins geturðu verið með síðu með 10.000 aðdáendum en aðeins 3-5 sanna aðdáendur, eins og þá sem síðan með 100 aðdáendur er með. Hugsaðu út fyrir lækin og mældu aðra þætti líka.

Vertu persónulegur og mannlegur

Maður er manns gaman. Þannig hefur það alltaf verið og mun alltaf vera. Um leið og aðdáendur vilja kynnast vörumerkinu eða fyrirtækinu betur, þá má ekki gleyma því að þeir hafa ekki endalausan áhuga á að heyra innihaldslýsingar, mont eða slagorð fundin upp á auglýsingastofun (sem eru þó til margs gagnleg). 

Ef þú gerir innsláttarvillur eða mistök, leyfðu þeim að standa. Biddu frekar bara afsökunar á þeim. Spurðu um skoðanir aðdáenda. Forvitnastu um þá og leyfðu þeim að kynnast þér. Sjáðu hvað Grímur kokkur gerði hér, persónulegt og mannlegt og fær mjög góð viðbrögð. 

Ekki óttast það að fá aðstoð

Það er til fullt af frábæru markaðsfólki sem hefur viðamikla og góða þekkingu á því hvernig hægt er að markaðssetja á samfélagsmiðlum. Leitaðu til þeirra. Fáðu ráð. Heyrðu hvernig þau hafa unnið í gegnum tíðina, lærðu af mistökum þeirra. Það hjálpar.  


Lendingarsíður á Facebook

facebook-like-buton

Á ráðstefnu sem ég sat nýlega kom fram að um 70% allra Facebook-læka sem fyrirtækja- og vörumerkjasíður fá koma í gegnum auglýsingar. Hafirðu hug á því að fjölga aðdáendum á síðunni þinni er það alls ekki slæmur kostur að geta auglýst síðuna og jafnvel miðað á markhópinn, með þeim hætti sem Facebook býður upp á. Nú einnig er hægt að fara út í vinaleiki, þar sem notendur eiga að bjóða öllum vinum sínum og geta þá hugsanlega unnið eitthvað (og ég verð enn var við) en ég minni á, að skv. reglum Facebook er það ekki leyfilegt, enda værirðu þá að hvetja aðdáendur þína til að spamma vini sína. 

Ef þú ákveður að fara auglýsingaleiðina þá er eitt atriði sem mig langar til að benda á og ræða hér. Það atriði eru lendingarsíður. Jafnvel þó þú sért ekki að auglýsa síðuna, þá getur verið gott að hafa lendingarsíðu, þ.e. síðu sem notendur sem eru ekki aðdáendur byrja á eða síðu sem tengist auglýsingu þinni beint. 

Lendingarsíða þarf að hafa ákveðna eiginleika. Hún þarf að innihalda einhverjar upplýsingar, í hvaða formi sem þær kunna að vera, og hvetja þá sem hana skoða til að læka síðuna (sé markmiðið að fjölga þeim). Hægt er að fara margar leiðir að þessu, t.d. væri hægt að vera með einfalda mynd sem bendir á læk hnappinn. Til eru aðrar leiðir, svo sem þá sem notuð var af þeim sem stóðu að Heilsu&Hamingju atburðinum í Smáralind, þá sem Nói&Síríus eru að nota og loks þá sem finna má á aðdáendasíðu Floridana.

Allar eiga þessar síður það sameiginlegt að vera í raun ekkert annað en síður sem hafa verið rammaðar inn í Facebook, þ.e. notast við i-frame möguleikann. Sumar eru með flóknari viðbætur undir, t.d. síða Nóa&Síríus, en aðrar eru einfaldari. Það er í raun ekki neitt sem bendir til þess að því flóknari eða einfaldari sem síðan er því fleiri læk, heldur þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig, t.d. virkar ágætlega sú leið sem Nói&Síríus er að fara núna (þó mér hugnist illa að ég þurfi að bögga vini og fjölskyldu til að vera með) en myndi virka jafnvel að nota sömu leið fyrir Nóa Kropp? Notendur eru fyrst og fremst að leita að gildi, hvort sem um lendingarsíðu eða annað er að ræða og í tilfelli N&S felst gildið í að fá gefins páskaegg frá þeim. Ef síðan hefur gildi fyrir notanda, á þeim tíma sem hann sér hana, þá virkar hún. 

Ég mæli eindregið með, ef þú ert að velta þessum hlutum fyrir þér, að þú skoðir hvernig Red Bull hafa tæklað þetta. Þeirra leið er mjög einföld, smart, á við vörumerkið og augljóst hvert markmið hennar er. Þú þarft ekki að taka við einhverri viðbót, sem gefur hönnuðum leyfi til að pósta á vegginn þinn, aðgang að upplýsingunum þínum, heldur bara hvetur gesti til að ýta á læk og fá þannig aðgang að öllu efni síðunnar, sem er ekki lítið. Stundum er minna meira. 


Predikarinn

SMSframework_500w

Þegar ákveðið hefur verið að taka þátt á samfélagsmiðlum, sama hver miðilinn er, er ágætt að eiga sér eitthvað plan til að fylgja og þá á ég ekki bara við það að skoða POST módelið. Í sjálfu sér er það býsna gott, það kemur manni af stað, hjálpar manni að búa sér til markmið og aðferðarfræði, en er þó þeim annmörkum háð að fjalla hvorki um mikilvægi þess að hlusta, mæla og - það sem ég ætla að fjalla um í dag - að finna predikarann. Mörg módel á borð við POST hafa verið gefin út á undanförnum árum. Þau eru misjafnlega góð en það sem mér hefur þótt einna lærdómríkast að fylgja og gefast best er það sem má sjá hér á meðfylgjandi mynd. Þar er farið nokkuð ítarlega yfir hvaða þættir eru mikilvægir þegar farið er af stað með þátttöku vörumerkis eða fyrirtækis á samfélagsmiðlum.

Mörg fyrirtæki, bæði hér heima og erlendis, líta svo á að það sé einfaldlega á könnu annað hvort upplýsingatæki-, markaðsdeildar eða fjölmiðlafulltrúa að sjá um að halda úti þátttöku vörumerkis á samfélagsmiðli. Vissulega snertir slíkt starfssvið allra þessara ólíku þátta innan fyrirtækis, t.d. getur upplýsingadeildin komið að gerð ólíkra viðbóta (apps), markaðsdeildin skaffað myndefni og fjölmiðlafulltrúinn útvegað fréttir sem og stýrt, ásamt markaðsdeild, hvernig er fjallað um vörumerkið, hver staðfærslan sé osfrv. Hins vegar þarf það ekki endilega að vera nokkurt af því starfsfólki sem vinnur í téðum deildum sem sér um daglegar uppfærslur og að svara fyrir hönd vörumerkisins. Það getur í rauninni verið hvaða starfsmaður fyrirtækisins eða vörumerkisins sem er, jafnvel einhver utanaðkomandi. Einu skilyrðin sem sá aðili þarf að uppfylla er að vera predikari (e. lynch pin, í módelinu hér að ofan er talað um internal champion).

Predikarinn er einstaklingur sem er sannarlega áhugamaður um vörumerkið, þekkir það inn og út og á auðvelt með að deila reynslu sinni af því. Þessi einstaklingur eða einstaklingar geta verið á launum hjá vörumerkinu, eins og áður segir, en þeir geta líka verið algjörlega ótengdir því. Eflaust mætti kalla þessa einstaklinga einnig sendiherra vörumerkis (brand ambassador), en ég er þeirrar skoðunar að örlítill eðlismunur sé á þessum tveimur hlutverkum. Sendiherrann er einhver sem getur alltaf talað máli vörumerkis, þ.e. varið það fyrir ómaklegri gagnrýni, en predikarinn er einhver sem getur í raun svarað fyrir hönd vörumerkið og bryddar óhikað upp á umræðum um það. Gott dæmi gæti verið munurinn á öllum þeim þúsundum sendiherra sem Apple fyrirtækið hefur skapað sér í gegnum árin, óteljandi einstaklingar sem eru tilbúnir að verja allar vörur þess og fyrirtækið sjálft fyrir ómaklegri gagnrýni, hvort sem hún birtist á netinu eða ekki. Dæmi um predikara gætu verið þeim sem halda úti opinberu Coca Cola síðunni á Facebook, en þegar þeir byrjuðu með síðuna þá voru þeir í engum tengslum við Coca Cola en fyrirtækið ákvað að gera þá að predikurunum sínum.

Það að hafa predikara til að halda uppi lífi á samfélagsmiðlasíðum vörumerkis hefur marga kosti í för með sér. Þeir sem hafa gaman af vörumerkinu, þ.e. aðdáendurnir, fá meira út úr tilveru viðkomandi vörumerkis á samfélagsmiðlinum ef sá sem setur inn stöðufærslurnar er sannur aðdáandi sjálfur. Aðdáandi sem hefur ítarlega þekkingu á vörumerkinu. Slíkt skapar meira gildi og notendur eru sífellt í leit að því, þó ólíkt kunni að vera á milli vörumerkja. Predikarinn vinnur af ástríðu, af því vörumerkið skiptir hann máli. Ástríða er smitandi. Persónulega hlusta ég á ákveðna tegund af tónlist og á nokkra vini á Facebook sem hafa svipaðan tónlistarsmekk. Einn þeirra er sífellt að setja inn ný lög með nýjum hljómsveitum og ég er þannig alltaf að læra eitthvað nýtt. Hugsaðu þér hversu gott væri, ef þú hefðir predikara sem gerði slíkt hið sama fyrir vörumerkið þitt. Þú fengir meiri svörun, lækum myndi fjölga og viðvera vörumerkisins á samfélagsmiðlum yrði fyrir vikið sterkari. 


Auglýsingar á Facebook

Nær öll vörumerki og fyrirtæki sem eru með viðveru á Facebook hafa eða munu á einhverjum tíma auglýsa síðuna sína. Enda engin furða, þar sem það er góð leið til að ná í aðdáendur og minna á vörumerkið. Það er þó ekki sama hvernig auglýsingin er gerð úr garði, ekkert frekar en aðrar auglýsingar. Þetta er tiltölulega lítið pláss sem stendur til boða og fá stafabil, það þarf því að vera klókur og stundum að hugsa örlítið úr fyrir kassann. Ég ætla þó ekki að fjalla um hvernig gera eigi slíkar auglýsingar, til þess eru aðrir betur fallnir en ég. Hins vegar langar mig til að fara aðeins yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar farið er af stað með slíkar auglýsingar, hvort sem um Facebook ad er að ræða eða sponsored story.  

Miðun

Auglýsingar á Facebook bjóða upp á mjög mikla miðun (e. targeting) og það skyldi síst vanmeta. Þú getur skoðað hvernig samsetning aðdáendahóps þíns er á aðdáendasíðunni þinni og þannig séð hvort þú ert að ná til þess hóps sem þú alla jafna telur markhópinn. Þó þarf miðunin ekki bara að vera bundin við kyn eða aldur, heldur geturðu einnig sett inn ákveðin hugtök, t.d. fótbolti eða tónlist (á ensku að sjálfsögðu), og þá birtist auglýsingin þeim sem hafa áhuga á hvoru tveggja. Eru þær upplýsingar dregnar út frá því hvaða síður notendur hafa gerst aðdáendur að. Þannig geturðu náð eyrum þeirra sem virkilega hafa áhuga á því sem þú ert að segja. Að lokum eru tveir möguleikar í miðuninni sem er vert að minnast á, annars vegar sá að auglýsingin birtist bara þeim sem eru ekki aðdáendur eða öfugt og hins vegar að birta auglýsingu vinum þeirra sem eru aðdáendur. Seinna atriðið getur verið mjög öflugt því oft hafa vinir svipuð áhugamál.

Hvert leiðir auglýsingin?

Þegar þú hefur ákveðið hver á að sjá auglýsinguna er ágætt að huga að því hvert hún á að leiða þá sem smella á hana. Hvort sem þú ákveður að leiða fólk inn á facebook síðuna þína eða inn á vefsvæðið þitt, þá mæli ég eindregið með því að þú búir til lendingarsíðu. Það er einfalt að búa til slíka síðu á Facebook, bæði er hægt að notast við FBML síðu og eins er hægt að búa til viðbót (e. application) sem gerir sama gagn. Lendingarsíðan á þá að innihalda ítarlegri upplýsingar og jafnvel hvetja þá sem þangað koma til að gera eitthvað, taka þátt eða með einum eða öðrum hætti að fanga þá. Heilsa og Hamingja gerði þetta ágætlega, en þar var lendingarsíða einfalt próf sem kannaði hvort viðkomandi væri að fá nægan svefn, en til að taka þátt í könnuninni þurfti að vera búið að smella á Like. Þannig fjölgaði aðdáendum um leið og þeir fengu eitthvað gildi úr þátttöku sinni, þ.e. upplýsingar um hvort þeir væru að sofa nóg.

Það hefur sína kosti og galla að senda þá sem smella á hvorn stað fyrir sig. Með því að færa umferðina á þitt eigið vefsvæði gefst þér enn betri kostur á að mæla umferðina. Einn af öllum þess að færa umferðina yfir á Facebook síðu er einmitt sá að geta ekki fylgst nákvæmlega með því hverjir smella á auglýsinguna, hversu lengi þeir dvelja á Facebook síðunni og gert viðeigandi ráðstafanir ef þær upplýsingar eru þér ekki þóknanlegar. Það er reyndar hægt með hliðarleiðum að fela vefmælingu inn á facebook síðum en til þess þarf aðeins meira en almenna vefþekkingu.

Fjármagn

Þá er komið að því að ákveða hversu miklu þú vilt eyða í auglýsingakostnað. Persónulega er ég mun hrifnari af því að borga fyrir birtingar en smelli, reynslan hefur kennt mér að þannig fái ég meira fyrir peninginn. Hins vegar er það enginn heilagur sannleikur. Besti skólinn er reynslan og ef það hefur virkað fyrir þig að borga fyrir smelli, þá er það frábært. Facebook leggur til ákveðna upphæð, ég býð yfirleitt eitthvað undir henni. Það er þó alltaf hægt að breyta upphæðunum og mikilvægt að prófa sig áfram. 

Fylgstu vel með á hverjum degi

Það er einfalt mál að fylgjast með því hversu oft auglýsing birtist, hvert smellihlutfall hennar er og hvaða áhrif hún hefur. Ekki hika við að prófa þig áfram, t.d. vera með mismunandi auglýsingar fyrir kynin, prófa ólíkar myndir og svo framvegis. Annað sem er gott að hafa huga þegar verið er að fylgjast með gengi auglýsinga er sú staðreynd að oft fá notendur svokallað borðablindni, þ.e. hætta að sjá auglýsingu eða vefborða. Ef þér finnst auglýsing hætt að virka eftir nokkra daga, þá mæli ég eindregið með að henni sé breytt.

---

Það er þó ekkert jafn lærdómsríkt og að prófa sig áfram sjálfur. Mistök eru til að læra af þeim.  


Youtube

youtube_logo

Youtube er önnur stærsta leitarvélin á netinu og auk þess gríðarlega stór samfélagsvefur. Þar geta notendur skipst á lögum, skoðunum og í raun hverju sem er, svo lengi sem það er í formi myndbands. Þó svo að Youtube fari yfirleitt ekki hátt á Íslandi sem vefur til að koma skoðunum sínum á framfæri, er þó mjög mikilvægt að fyrirtæki og vörumerki séu virk á vefnum og dugleg við að setja inn efni þar. Bæði er mjög auðvelt að tengja myndbönd af Youtube inn á aðra samfélagsmiðla og eins er það gott upp á hlekkjauppbyggingu (e. link building). Það eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að nota Youtube fyrir vörumerki eða fyrirtæki. 

Tryggðu þér góða slóð

Það er mikill munur á því að geta vísað á slóðina youtube.com/pepsi og slóðina youtube.com/user/129474895. Tryggðu þér því góða slóð og mundu að notandanafn þitt stýrir því hver slóðin verður. Veldu því gott og lýsandi notandanafn.

Búðu þér til sérrás

Með því að búa til sérrás getur þú hlaðið inn mörgum myndböndum sem öll birtast undir þínu notandanafni og þinni slóð. Settu lógóið þitt inn sem mynd í prófíl þinn.

Gerðu rásina að þinni

Veldu þá liti sem eru í vörumerkinu og skiptu um bakgrunnsmynd. Hafðu bakgrunnsmyndina 1280x1024 og gættu þess að skilja eftir miðjusvæðið autt, þar sem þar er videospilarinn. Reyndu að nota frekar kantana en miðjuna. Ef þú ert með frekar litla mynd er hægt haka við Repeat Background.

Veldu rétt tags fyrir myndböndin

Youtube er leitarvél, eins og áður segir. Ekki gleyma að setja rétt tags á myndböndin þín, þannig að þau raðist ofarlega í viðkomandi leitum.

Vertu virkur

Gerstu vinur annarra notenda á Youtube. Svaraðu athugasemdum þeirra. Fylgstu með hversu margar birtingar myndböndin þín fá og bregstu við. Hagaðu þér eins og um hvern annan samfélagsmiðil sé að ræða.

Tengdu saman Facebook og Youtube

Facebook er lang sterkasti samfélagsmiðilinn hérlendis. Ekki hika við að tengja saman Youtube aðganginn þinn og Facebook síðuna þína. Birtu öll myndbönd sem þú setur á Youtube á Facebook síðunni þinni. Einnig er hægt að nota ýmis application sem tengja saman rásina og síðuna þína.

---

Í raun mætti segja að netið er að breyta því hvernig fyrirtæki og vörumerki nálgast sjónvarpsauglýsingagerð. Í dag eru stærstu fyrirtækin farin að hugsa fyrst um netið sem vettvang, enda er hægt að hafa auglýsingar mun lengri og ítarlegri þar en nokkurn tíma í sjónvarpi. Nærtækt dæmi væri auglýsing Pepsi fyrir síðustu heimsmeistarakeppni í fótbolta (sjá hér), auglýsing sem er 2:30 að lengd en auk hennar voru birt myndskeið frá því er auglýsingin var gerð. Það sem var síðan birt í sjónvarpi var nær undantekningalítið myndskeið sem klippt voru úr auglýsingunni sem birt hafði verið á netinu. Sífellt fleiri fyrirtæki eru farin að feta þessa slóð.

Önnur vinsæl dæmi eru auglýsingar Old Spice og Tippex. Hvor um sig var gagnvirk og gátu notendur á Youtube haft áhrif á hvernig auglýsingin endaði eða komið einhverju á framfæri. Eins má ekki gleyma því að Youtube er frábær leið til að koma nýjungum, breytingum eða hverju sem er á framfæri, eins og sagan af Orabrush kennir okkur.  

Myndbönd og Youtube gefa markaðsfólki tækifæri á að koma mun ítarlegri upplýsingum á framfæri við neytendur, ekki er lengur nauðsynlegt að draga saman allt sem þarf að koma fram í eina til tvær setningar, heldur er hægt að segja sögu. Og er það ekki markmið allra vörumerkja? Að geta sagt góða sögu, eins og strákarnir á Vert fjölluðu um á bloggi sínu fyrir skemmstu. 

Með því að virkja Youtube færðu tækifæri til þess.  


Dauði Facebook

facebook-graveyard-image-1-689921216

Nokkrir fjölmiðlar hérlendis virðast leggja nokkurn metnað í að segja frá fréttum af tilvonandi, spáðum eða ímynduðum dauða Facebook. Þessar fréttir eru misvel unnar, að mér sýnist, yfirleitt er vitnað í aðra fjölmiðla sem örugga heimild í stað þess að skoða uppruna þeirrar fréttar sem vísað er til. Til dæmis birti Pressan grein fyrir nokkru um að þann 14. mars yrði Facebook lokað. Þessi orðrómur gekk í skamma stund á netinu fyrir um mánuði en Facebook svaraði orðróminum fljótlega og bar hann til baka, eins og glöggir netnördar hafa komið auga á, t.d. á vefum á borð við Mashable. Nú í morgun birtir Pressan grein unna upp úr grein Berlingske tidende, sem aftur vísar í grein í Politiken. Báðar greinarnar byggja á rannsókn sem gerð var í Danmörku og hefur verið þó nokkur umræða um þá rannsókn og hvaða niðurstöður hafa verið dregnar úr henni, t.d. hefur verið gagnrýnt að þær tölur sem stuðst er við í henni eru meira en ársgamlar (sjá hér)

Er Facebook að deyja?

Þetta er mjög áhugaverð spurning og gaman að velta vöngum yfir þessu atriði, sérstaklega í ljósi þess hvernig fór fyrir Myspace og Friendster á sínum tíma. Þó verður að gæta þess að Facebook er orðið miklu mun stærri vefur en hinir tveir voru við fall og hve Facebook hefur markað sig rækilega sem hluti af daglegu lífi fólks, og þá sérstaklega hérlendis. Þetta eru helstu styrkleikar Facebook og þess vegna held ég, að markaðsfólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að vörumerkja- og fyrirtækjasíður þeirra verði gagnslausar á einni nóttu. Ég meina, hvert ættu 600 milljón notendur að hverfa? Enn sem komið er hefur enginn vefur komið fram sem gæti tekið við af Facebook. Fyrir nokkrum mánuðum var mikil eftirvænting fyrir Diaspora en eitthvað virðist hafa dregið úr henni. Er það þá Twitter? Einhver af samfélagsmiðlunum sem treysta á farsíma, á borð við Foursquare?

Mikið hefur verið rætt um öryggismál á Facebook og þá staðreynd að vefurinn selur persónuupplýsingar til þriðja aðila. Þetta atriði hafa margir talið að muni verða til þess að Facebook hverfi. Ég er ekki sammála því. Yngsti hópur notenda hefur allt önnur viðmið hvað varðar deilun en eldri notendur, sá hópur hefur alist upp við að vera á samfélagsmiðlun þar sem þau deila og dreifa því sem þeim sýnist. Eldri hópurinn virðist heldur ekki taka þetta nærri sér, því í hópurinn +55 ára er sá sem stækkar hvaða hraðast á Facebook.

Þar erum við hins vegar farin að nálgast það sem ég tel að muni á endanum fella Facebook. Ég sat nefnilega um daginn á Grillhúsinu og á borðinu við hliðina á mínu sátu 6-7 eldri borgarar og voru að tala um það sem þau höfðu verið að gera á Facebook um daginn. Þá fannst mér ekkert sérstaklega töff að vera á Facebook og ég get rétt ímyndað mér hvernig unglingum hefði liðið ef nokkur þeirra hefði hlýtt á samræður gamla fólksins. Þegar mamma, systir hennar og afi eru komin á Facebook, að setja miður töff athugasemdir við myndir (,,Æ, ertu búinn að klippa þig? Þú sem varst svo sætur þegar þú varst lítill, með krullur og Lúlla litla bangsa!") eða stöðuuppfærslur, þá finnur sá hópur sér nýjan samfélagsmiðil, eitthvað sem er töff og ekki staður mömmu og pabba.

Hvað tekur þá við?

Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá, segir í þekktu jólalagi og mér sýnist það vera raunin með hvað taki við af Facebook. Sá vefur er svo gríðarlega sterkur, að það er erfitt að sjá fyrir sér hvað gæti tekið við af honum. 

Ég á 7 ára dóttur, sem er aðeins farin að fikra sig áfram á netinu. Hún fær að heimsækja tvær síður í tölvunni minni, sem hvor fyrir sig er samfélagsvefur. Annars vegar Club Penguin og hins vegar Moshi Monsters. Báðir vefirnir ganga út á leiki og að börn geti búið sér til einhvers konar gervipersónu, sem þau síðan nota til að kynnast öðrum, mætti jafnvel kalla þetta Social-Media/pre-Virtual reality. Henni finnst þetta mjög skemmtilegir vefir og á vini þar, rétt eins og ég hef eignast vini í gegnum Facebook, Twitter og alla þá samfélagsmiðla sem ég stunda.

Ég veit ekki hvort það verði framtíðin, að einhvers konar virtual reality samfélagsmiðlar verði raunin, en það er þó alveg jafn ólíklegt og hvað annað. Yngstu kynslóðirnar, sem alast upp innan þess umhverfis, munu hugsanlega kalla eftir slíkum miðli þegar hún eldist.

Eins er alveg jafn líklegt að næsta stóra stökk í samfélagsmiðlum verði í gegnum símatækni og tengist þá enn frekar staðsetningu notandans en áður. Facebook er að taka þátt í því með tilkomu Facebook Places, en nú þegar hefur notkun á því hafist, t.d. á Írlandi. Mig grunar, að sú kynslóð sem muni mestu ráða um næsta stóra samfélagsmiðil séu þeir einstaklingar sem eru 10-12 ára um þessar mundir. Eftir 4-8 ár mun sá hópur hafa fundið sér nýjan miðil og verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr hattinum.  


Að gefa hlutunum gildi

6a01127982518128a40133eff36d79970b-800wi

Við Íslendingar erum um margt merkileg þjóð, fyrir utan tungumálið okkar og fornsögurnar þá erum við líka sú þjóð sem hefur hvað tekið Facebook hvað opnustum örmum. Enda hafði Rick Kelley orð á því við opnun RIMC-ráðstefnunnar síðastliðinn föstudag að hann hafi hreinlega þurft að koma hingað og fá að kynnast þessari þjóð, þar sem um 80% landsmanna er á Facebook og meirihluti þeirra heimsækir vefinn 6 af 7 dögum vikunnar. 

Við erum líka ansi dugleg við að taka þátt í leikjum á Facebook, sérstaklega ef það eru gott sem engar líkur á því við getum unnið eitthvað. Stundum minnum við svolítið Loyd Christmas úr Dumb&Dumber, góðhjörtuð en stundum pínu barnaleg. Í okkar huga er 1 á móti 1.000.000 góðar líkur á Facebook! Þessir leikir, þó þeir skili umtalsvert mörgum lækum, hafa að mínu mati ekki endilega gildi í huga þess sem lækar. Hann er jú að læka til að eiga þennan séns, en ekki af því hann er raunverulegur aðdáandi, nema í minnihluta tilfella. Og sú spurning sem óhjákvæmilega rís alltaf í huga mínum er: Hvað svo? Hvað á að gera þegar búið er að halda þennan leik, Loyd Christmas hefur fengið sjónvarpið sitt, eða hvaða önnur verðlaun voru svo sem í boði í það skipti? Hvaða gildi á síðan þá að hafa?

Ég er þeirrar skoðunar að það sem við gerum á samfélagsmiðlum verður að hafa eitthvað gildi (e. value). Það verður að vera eitthvað sem notendur græða á því að vera vinur vörumerkis eða fyrirtækis á Facebook, lesa blogg þeirra, fylgjast með Youtube rásinni eða fylgjast með á öðrum samfélagsmðlum. Gildið getur verið mjög margþætt og það þarf ekki endilega að endurspeglast í einhverjum fjárhagslegum gróða, þó það megi vissulega fylgja af og til. Það getur haft rosalega mikið gildi fyrir fólk, að geta komist í snertingu við vörumerki og eiga í samræðum við það. Eins getur verið mikið gildi í því, að geta haft áhrif á það hvers lags bragð er næst framleitt af einhverjum gosdrykk. Gildi getur líka falist i því, að hafa færi á að koma umkvörtunum sínum á framfæri og sjá að hlustað er á það sem maður hefur að segja. Gildi getur einnig verið í afsláttarmiðum, leikjum, gefins miðum á kappleiki eða tónleika og í raun getur gildi verið hvað það sem þú ert tilbúin/-nn að leggja í það sem þú ert að gera á samfélagsmiðlum. Það, að vera á samfélagsmiðlum, er ekki gildi í sjálfu sér, heldur hvað þú gerir og hvernig þú tengir það við vörumerkið eða fyrirtækið.

Grímur Kokkur var valinn áhrifamestur á samfélagsvefjum á sýningunni Nexpo nú um helgina. Þeir sem standa að síðu þeirra á Facebook eru vel að þessu komnir, enda með hátt í 20 þúsund aðdáendur og síðan þeirra hefur mikið gildi. Síðan er uppfærð nokkuð reglulega, hver póstur hefur einhver tengsl við það sem þeir eru að markaðssetja og fyrir vikið fá þeir heilmikla svörun. Þeim hefur tekist að byggja upp góðan grunn aðdáenda og ná fyrir vikið að halda að þeim flottu vörumerki. Þeir hafa tekið sér góðan tíma í að byggja upp síðuna og gefa því sem þeir gera það mikið gildi. Ef þú hefur ekki skoðað hvernig þeir vinna á Facebook hvet ég þig eindregið til að gera það.  

Á RIMC kom svolítið áhugavert fram. Þar talaði einn fyrirlesarinn um annars vegar að draga úr yfirlýsingum en vinna þess í stað verkin framúrskarandi vel (e. underpromise og over-deliver). Ef þessu er fylgt eftir á samfélagsmiðlun, þá er í raun verið segja, að við eigum að spara stóru orðin og láta verkin tala. Þeir hjá Grími gera það, þeir minna frekar á réttina sína og láta síðan neytendum eftir að tala vel um vöruna þeirra, t.d. er plokkfiskurinn þeirra afbragðsgóður (reyndar er mömmu plokkfiskur bestur). 

Við gefum því sem við gerum á samfélagsmiðlum gildi. Ef við tryggjum að gildið sé eitthvað sem skiptir notendur máli, þá fáum við svörun og virkni frá þeim. Gildi er það sem notendur kalla eftir. Látum það eftir þeim.  


Samfélagsmiðlar og þátttaka starfsfólks í markaðssetningu

social_media_marketing

Ég flutti stutt erindi í Opna háskólanum í gær um markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Þar ræddi ég aðallega um hvaða leiðir við í Ölgerðinni höfum farið og ræddi meðal annars um þátttöku starfsfólks í markaðssetningunni. Um þetta atriði spunnust nokkrar umræður og er nokkuð sem mjög mismunandi, heyrði ég, á milli fyrirtækja og sýndist sitt hverjum. 

Fyrirtæki nálgast samfélagsmiðla með mjög ólíkum hætti. Í sumum fyrirtækjum er starfsfólki leyfilegt að kíkja inn á Facebook og aðra sambærilega miðla í vinnutíma, í öðrum er það takmarkað við ákveðna tíma og í enn öðrum er alveg lokað á allt það sem gæti flokkast sem samfélagsmiðill. Það er hægt að færa góð rök fyrir hverri aðferð út af fyrir sig, en mig langar til að fjalla aðeins um þá möguleika og ógnir sem felast í því að leyfa starfsfólki að nota samfélagsmiðla á vinnutímum.

Við viljum gjarnan líta svo á, að allt starfsfólkið hjá ákveðnu fyrirtæki sé hluti af söluteymi þess, hvort sem um ræðir Siggu á símanum, Bubba í bókhaldinu eða Lalla á lyftaranum. Ástæðan er sú, að við viljum að allt þetta starfsfólk versli vörur fyrirtækisins eða hjá fyrirtækinu og séu góðir sendiherrar fyrirtækisins úti á markaðnum. Ef við nálgumst netið á þann hátt, að það sé í raun stærsta markaðstorg sem nokkurn tíma hefur komið fram, þá ætti að vera í lagi að biðja þessa sendiherra, sem við annars treystum fyrir mikilvægum störfum innan fyrirtækisins og fyrir því að vera sendiherrar í raunveruleikanum, að gera slíkt hið sama á netinu, þ.e. að vera góðir sendiherrar fyrirtækisins. Á því leikur enginn vafi, að nær allt starfsfólkið í fyrirtækinu er þátttakendur með einum eða öðrum hætti á einum eða fleiri samfélagsmiðlum og hvers vegna ekki að nýta krafta þeirra?

Þátttaka þeirra getur skipt sköpum. Það að geta beðið nokkra tugi, jafnvel nokkur hundruð manns að deila efni, taka þátt í markaðssetningu eða leita innan þeirra raða að lykilnotendum er rosalega mikill auður og oft vanmetinn. Í þessu gildir, eins og svo mörgu öðru, að betur sjá augu en auga. Auk þess getur þátttakan aukið samkennd innan fyrirtækisins sem og stolt starfsfólks af því að vinna fyrir fyrirtækið. 

Lykilnotendur og sérfræðingar leynast innan hvers fyrirtækis, þú þarft bara að þefa viðkomandi uppi. Það getur verið afgreiðsludaman sem á 1500 vini á Facebook og heldur úti víðlesnu tískubloggi. Fyrir fyrirtæki sem flytur inn snyrtivörur væri slíkur notandi á netinu ómetanlegur. Það getur líka verið forstjórinn, sem þekkir vörurnar út og inn og getur virkað sem sérfræðingurinn sem þú ert að leita að.

Það sem mestu máli skiptir er að annars vegar vera með skýra stefnu í þessum málum og hins vegar að treysta starfsfólki fyrir því að framfylgja henni. Í stefnunni þarf að koma fram til hvers er ætlast af almennu starfsfólki, til hvers er ætlast af þeim sem fengið er stærra hlutverk (t.d. að setja inn stöðuuppfærslur á síður) og eins hvernig brugðist skuli við ef upp koma krísur á netinu. Venjulega er starfsfólki treyst fyrir sínum daglegum störfum og ættu því flestir að vera traustsins verðir á samfélagsmiðlum.

Helstu ógnir við þessa stefnu eru þær, að því miður er sumum ekki teystandi. Bæði hvað varðar notkun og eins hvað varðar aðkomu að og hegðun á samfélagsmiðlum. Besta leiðin til að nálgast hvort vandamál fyrir sig er, að fræða starfsfólk til hvers er ætlast af því og hvað felst í því trausti sem því er sýnt. Það gera sér ekki endilega allir grein fyrir því, að t.d. sumir af Facebook félögum þeirra hafa eingöngu kynnst þeim í gegnum starf þeirra hjá fyrirtækinu og þar af leiðandi tengja þetta tvennt óhjákvæmilega saman. Því er mikilvægt að upplýsa fólk hvað felst í þátttöku þeirra á samfélagsmiðlum. Þessa ógn er þó hægt að vinna með og gera að styrkleika. Önnur ógn felst í umfjöllun starfsfólks um viðskiptavini eða samkeppnisaðila. Í því gildir það sama, að fræða starfsfólk um mikilvægi þess að vera jákvæð og uppbyggjandi á netinu, jafnvel að nálgast það út frá umræðu um vörumerkið mig, þ.e. hvaða mynd vill fólk draga upp af sér á netinu. Að lokum skiptir líka máli, að ætla sér ekki um of. Þó starfsfólk sé margt allt af vilja gert til að deila, líka og láta vini vita, þá má þrýstingurinn um slíka þátttöku aldrei verða of mikill og snúast þannig upp í andhverfu sína, þ.e. að starfsfólk verði pirrað og finnist fyrirtækið vera nota sig.  

Eins og áður segir, þá er ekki til nein ein rétt leið í þessu. Hvert fyrirtæki fyrir sig þarf að finna hvað hentar þeim og hvernig þau vilja haga sinni nálgun á samfélagsmiðla. Starfsfólk getur vissulega verið frábær viðbót og fært með sér aukinn slagkraft, en án kennslu er hættan sú, að einhverjir í starfsliðinu reynist dragbítar. Engin keðja er jú sterkari en veikasti hlekkur hennar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Þorsteinn Mar Gunnlaugsson
Faðir, spunaspilari, vefstjóri, rithöfundur

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband