Bloggið er eini óháði fjölmiðillinn

Í dag er ekki hægt að sjá annað en að blogg sé eini óháði fjölmiðillinn. Nær allir aðrir fjölmiðlar eru seldir undir skoðanir og ítök eigenda sinna, sbr. hvernig farið hefur fyrir DV sem þó hefur stært sig af því að vera eini óháði fjölmiðillinn. Þetta mál er í raun eins klúðurslegt og hugsast getur orðið og ég fæ ekki séð hvernig báðir ritstjórarnir geti vel við unað eða þá setið áfram, þegar þeir verða uppvísir að því að ljúga annars vegar og hins vegar reyna sverta mannorð fyrrverandi starfsmanns. Ég held, að þeim væri nær að hætta bara. Ekki svo að skilja samt, að ég sé að bera blak af gjörðum blaðamannsins, alls ekki, heldur er málið einfaldlega stærra en þau svik.

Hversu oft á meðan góðærinu stóð voru fréttir stöðvaðar, af því þær voru óheppilegar fyrir eigendur og vini þeirra? Hversu margar fréttir birtust aldrei fyrir augum almennings? Hvernig stendur á því að ennþá er haldið hlífiskildi yfir því fólki sem á hvað mesta sök í hruninu hérna? Ég held, að til þess að komast að sannleikanum þurfa blaðamenn og fleiri að rannsaka þetta sjálfstætt og birta á netinu, helst á þeirra eigin bloggsíðum.

Bloggið er opið öllum og getur hver sem er skrifað skoðanir sínar á mönnum og málefnum umbúðalaust. Reyndar heyrir maður öðru hvoru af því að bloggum hafi verið lokað vegna öfgakenndra skoðana sem þar koma fram, en þeim pennum er viðhalda slíkri ritstefnu er frjálst að opna annað blogg annars staðar þar sem meira umburðarlyndi er gagnvart ólíkum skoðunum.

Við skulum nefnilega ekki gleyma að við búum ennþá í samfélagi þar sem er skoðanafrelsi, mál-, funda-, prent- og trúfrelsi, þó svo það séu hópar í samfélaginu sem vilja helst skerða þessi mannréttindi okkar. Við þurfum að halda þeim á lofti, sérstaklega á þessum tímum því við hljótum að vilja fá allt upp á borðið og tryggja að svona fari ekki aftur. Til þess að geta lært af þessari reynslu þurfum við að þekkja hvernig í pottinn var búið. Og nú er komið í ljós, svo um munar og skildi einhvern ekki hafa rennt í grun um að svona væri komið fyrir fjölmiðlum landsins, að þeir eru allir ofurseldir eigendum sínum og ganga erinda þeirra. Er mark takandi á slíkum fjölmiðlum?
mbl.is Íhugar málsókn gegn Kastljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nú er búið að ala upp í mér svo massífa tortryggni að ég er ekki einu sinni viss um að bloggið sé laust við keypta áróðurspenna. Athugasemdir sem nafnlausir lesendur skrifa við meinlausar fréttir, t.d. á Eyjunni, bera vott um svo mikinn heilaþvott sumra að ég er stundum við það að missa móðinn. Þessi kreppa er svo langtum meira en fjárhagsleg aðför að fólki.

Varðandi DV er það svo einfalt auðvitað að ef fáir kaupa er útgáfunni sjálfhætt. Ég held að það hljóti að gerast á næstu dögum.

Berglind Steinsdóttir, 16.12.2008 kl. 18:54

2 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Bara smákveðja

Heiður Helgadóttir, 18.12.2008 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband